Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. hefur keypt drykkjarvörumerkin Frissa fríska og Blöndu og annast alla sölu og dreifingu þeirra drykkja frá og með mánudeginum 6. desember. Framleiðslan verður hins vegar áfram í höndum Norðurmjólkur á Akureyri og Mjólkurbús Flóamanna á Selfossi.

Ásmundur Helgason, markaðsstjóri Ölgerðarinnar, segir að Frissi Fríski og Blanda séu hvort tveggja vel þekkt vörumerki og góð viðbót við vöruúrval Ölgerðarinnar. ?Við erum afar ánægð með þennan samning. Frissi Fríski og Blanda eru drykkir sem eru vel þekktir og vinsælir á markaðnum og eru því kærkomin nýjung í vörufjölskyldu Ölgerðarinnar. Samningurinn skilar Ölgerðinni nær því markmiði, sem við höfum sett, að viðskiptavinir okkar geti nálgast allar drykkjarvörur á einum stað,? segir hann í tilkynningu frá félaginu.

Frissi Fríski er eingöngu búinn til úr náttúrulegum hráefnum. Hann fæst í fjórum bragðtegundum í tveggja lítra og 0,25 lítra fernum. Auk þess fæst appelsínusafinn í 10 lítra umbúðum.

Blanda er hreinn appelsínusafi og fæst í tvenns konar umbúðum. Auk þess er hægt að fá kalkbætta Blöndu.