Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. hefur kært til Úrskurðarnefndar hollustuhátta- og mengunarmála ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar (UHR), dags. 4. janúar 2005, þess efnis að stöðva dreifingu á drykknum Kristal Plús. Einnig er kærð synjun UHR á kröfu Ölgerðarinnar um að afturkalla dreifingarbannið.

Eins og fram hefur komið hefur Ölgerðin sótt um leyfi til vítamínbætingar á Kristal Plús til Umhverfisstofnunar og óskað þess að afgreiðslu umsóknarinnar verði hraðað eins og kostur er. UHR hefur hins vegar krafist þess að dreifing á Kristal Plús verði stöðvuð meðan umsókn Ölgerðarinnar er til meðferðar segir í tilkynningu Ölgerðarinnar.

Í kærunni kemur eftirfarandi fram:

1. Hvergi kemur fram á hvaða lagagrundvelli ákvörðun um stöðvun dreifingar er byggð. UHR hefur ekki verið falið að veita leyfi til notkunar bætiefna né að grípa til aðgerða sé ekki sótt um slíkt leyfi. Íþyngjandi ráðstafanir UHR eru á sviði sem fellur utan valdsviðs stofnunarinnar.

2. Reglugerð sem vísað er til vegna umsóknar um leyfi til að setja bætiefni í matvæli (19. grein reglug. nr. 285/2002) nær ekki yfir aukaefni, þ.e. vítamín og steinefni, eins og er að finna í Kristal Plús.

3. Könnun Ölgerðarinnar leiddi í ljós að ekki færri en 43 innfluttar drykkjarvörur eru fáanlegar í verslunum hér á landi sem innihalda sömu og í mörgum tilvikum fleiri bætiefni en Kristall Plús. Ekki verður séð að þessir drykkir hafi fengið leyfi á grundvelli fyrrnefndrar reglugerðar. Haft er eftir Rögnvaldi Ingólfssyni, deildastjóra matvælaeftirlits UHR, að flestir erlendu drykkjanna hafi fengið leyfi erlendra stjórnvalda og því ekki kannað hvort þeir uppfylli íslenskar reglur. Ölgerðin kannaði þessi mál í sjö Evrópulöndum. Í engu þeirra þurfti að sækja um leyfi til markaðssetningar á sambærilegum drykk og Kristal Plús, þ.e. kolsýrðum drykk með viðbættum B-vítamínum.

4. Dreifingarstöðvun er beitt gegn innlendri framleiðslu en ekki innfluttum vörum. Í slíkri mismunun felst brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um að allir séu jafnir fyrir lögum.

5. Rökstuddur grunur er alls ekki fyrir hendi þess efnis að Kristall Plús uppfylli ekki ákvæði matvælalaga eða reglugerða né að drykkurinn skapi hættu enda eru sambærilegir drykkir á markaði í Evrópu án inngrips þarlendra stjórnvalda.

6. Dreifingarbannið er Ölgerðinni algerlega óskiljanlegt og nauðsyn þess á huldu. Ölgerðin áskilur sér rétt til að krefja Reykjavíkurborg um skaðabætur fyrir ólögmætar aðgerðir sem felast í banni við dreifingu á Kristal Plús.