Það var margt um manninn á opnu húsi í Ölgerðinni í gær en þá var þeim áfanga fagnað að öll starfsemi fyrirtækisins fluttist undir eitt þak. Fjöldi gesta lagði leið sína á Grjótháls og skoðaði glæsilega nýbyggingu sem hýsir skrifstofur og vöruhótel en byggingin er áberandi þeim sem aka um Vesturlandsveginn.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að áður var starfsemi fyrirtækisins á sjö stöðum víðs vegar um bæinn en nú eru Danól, Egils, Hressing og Gnótt sameinuð á einum stað undir merkjum Ölgerðarinnar .

Af þessu tilefni var haldin mikil hátíð, gestir á öllum aldri kynntu sér starfsemina, rifjuðu upp söguna og nutu veitinga og skemmtiatriða. Vöruhótelið í nýju byggingunni er risavaxið og til gamans var það mælt að þar gætu rúmast 16 milljón stykki af  ½ lítra appelsínflöskum.