„Ekkert þjóðfélag getur látið bjóða sér að starfsemi heilbrigðiskerfisins sé lömuð meira og minna með verkfallsaðgerðum líkt og gert hefur verið. Kjaradeilu starfsmanna sem sinna lífsnauðsynlegri þjónustu er ekki hægt að leysa með verkföllum,“ segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þar fjallar Óli Björn um yfirstandandi verkfallsaðgerðir opinberra starfsmanna og setur þær í samhengi við kjaradeilur flugmanna við Samtök atvinnulífsins á síðasta ári.

„Flugmönnum og Samtökum atvinnulífsins var „bjargað“ úr sjálfheldu í maí á liðnu ári með lagasetningu. Í greinargerð frumvarps ríkisstjórnarinnar var lagasetningin réttlætt með því að „gríðarlegir samfélagslegir og efnahagslegir hagsmunir eru í húfi“ að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu,“ skrifar Óli Björn.

Hann segir að hafi staðið rök til þess að stöðva verkfall sem lamaði flugsamgöngur séu öll skynsamleg rök sem réttlæti að sett verði lög á verkföll opinberra starfsmanna, a.m.k. þeirra sem sinni grunnskyldum ríkisins.