Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokk í Suðurvesturkjördæmi, var sjálfkjörinn formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á fyrsta fundi nefndarinnar í morgun.

„Mér líst ágætlega á það að taka þetta að mér. Það náðist ágætt samstarf í nefndinni og ég hef enga ástæðu til að búast við öðru,“ segir Óli Björn í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þetta er nýbyrjað og við eigum eftir að fá málin inn. Við vitum af málum sem fara að berast. Nefndin á von á því á næstunni að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands komi á fund vegna nýrrar skýrslu. Þetta fer hægt af stað og við vorum að reyna að skipuleggja okkur í morgun, í ágætu tómi og léttleika,“ bætir Óli Björn við.

Spurður að því hvort að hann kæmi með einhver sérstök áherslumál inn í nefndina segir Óli Björn að hann hafi alla tíð haft mikinn áhuga á skatta- og peningamálum. „Það er stór hluti af verksviði þessarar nefndar. Okkar bíða áskoranir þegar kemur að endurskoðun peningastefnunnar, eins og ríkisstjórnin hefur boðað. Við þurfum auðvitað að huga að skattamálum í víðara samhengi en áður. Það verður að huga að samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að skattalegu umhverfi fyrirtækja og einstaklinga,“ segir hann að lokum.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, var kjörinn 1. varaformaður og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins 2. varaformaður.