Óli Björn Kárason, útgáfustjóri og stofnandi Viðskiptablaðsins, hefur látið af störfum.

"Síðustu misseri hafa verið annasöm enda ekki leikur að undirbúa daglega útgáfu Viðskiptablaðsins. Eftir nær 13 ár hefur gamall draumur fengist að rætast -- Viðskiptablaðið er orðið dagblað," segir Óli Björn Kárason. "Í gegnum tíðina hef ég á stundum gagnrýnt forystumenn í íslensku viðskiptalífi fyrir að þekkja ekki sinn vitjunartíma. Ég vil ekki hitta sjálfan mig fyrir í þeirri gagnrýni."

"Viðskiptablaðið stendur traustum fótum. Enginn fjölmiðill á landinu hefur meiri lestur eða nýtur meira traust í íslensku atvinnulífi," segir Óli Björn. "Blaðið hefur sterka og skynsama bakhjarla og hefur á að skipa færustu og bestu blaðamönnum á sínu sviði hér á landi. Á ritstjórn blaðsins starfar fólk sem er ekki aðeins vel menntað, heldur hefur hugsjónir og metnað til framtíðar fyrir Viðskiptablaðið. Framtíðin er því björt og því skynsamlegt fyrir þá sem eldri eru að draga sig í hlé."

Óli Björn mun skrifa reglulega í Viðskiptablaðið. "Þessi breyting þýðir ekki að lesendur Viðskiptablaðsins hafi losnað algjörlega við mig. En nú sný ég mér að öðrum verkefnum, sem hafa beðið síðustu mánuði," segir Óli Björn.