Óli Björn Kárason varaþingmaður og ritstjóri og útgefandi Þjóðmála sækist eftir þriðja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi 10. september næstkomandi vegna komandi alþingiskosninga.

Óli Björn er hagfræðingur að mennt en hefur starfað í rúmlega aldarfjórðung sem blaðamaður, ritstjóri og útgefandi. Hefur hann gefið út fimm bækur um viðskipti, efnahags- og dómsmál. Að auki hefur Óli Björn skrifað fjölda greina í dagblöð og tímarit en undanfarin ár hefur hann skrifað vikulega pistla í Morgunblaðið.

Traustur grunnur lagður undir framtíðina

„Það hefur margt tekist vel á yfirstandandi kjörtímabili og mestu skiptir að traustur grunnur hefur verið byggður undir framtíðina,“ segir Óli Björn í fréttatilkynningu.

„En framundan eru mörg og mikilvæg verkefni. Ég lít á mig fyrst og fremst sem talsmann sjálfstæða atvinnurekandans og millistéttarinnar, baráttumann fyrir lágum sköttum, sanngjarni samkeppni og jafnræðis, ekki síst í lífeyrismálum.“

Hófsemd í skattheimtu nauðsynleg til að tryggja öllum fjárhagslegu sjálfstæði

„Stærsta verkefni Sjálfstæðisflokksins er og verður að tryggja öllum fjárhagslegt sjálfstæði, ekki síst ungu fólki og þeim sem lokið hafa góðu dagsverki. Einmitt þess vegna verður hið opinbera að gæta hófsemdar í skattheimtu, lofa dugmiklu fólki að njóta erfiðisins, tryggja raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum og  leiðrétta mismunun í lífeyrisréttindum landsmanna,“ segir Óli Björn Kárason.