Óli Grétar Blöndal Sveinsson hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar. Þróunarsvið er nýstofnað svið innan Landsvirkjunar og er ætlað að sjá um undirbúning nýrra virkjanakosta og rekstrarrannsóknir.

Fram kemur í tilkynningu að Óli Grétar hafi undanfarin sex ár starfað hjá Landsvirkjun og Landsvirkjun Power. Fyrst sem deildarstjóri rannsókna verkfræðisviðs Landsvirkjunar og síðast sem framkvæmdastjóri rannsóknasviðs hjá Landsvirkjun Power þar sem hann bar ábyrgð á almennum rekstrar- og virkjunarrannsóknum og undirbúningi virkjana fram yfir frumhönnunarstig.

Hann starfaði hjá International Research Institute for Climate Prediction í New York frá 2002-2004 með áherslu á rannsóknir fyrir HydroQuebec í Kanada.  Frá 1989-2002 sinnti hann ýmsum störfum, meðal annars almennum ráðgjafarstörfum á sviði vatnaverkfræði í Bandaríkjunum.

Samhliða námi í Bandaríkjunum vann hann ýmis störf fyrir USBR (United States Bureau of Reclamation) og USDA (United States Department of Agriculture).

Fram til 1998 sinnti hann menntaskólakennslu, vatnamælingum og verkfræðilegum landmælingum hjá Menntaskólanum á Egilsstöðum, Vatnamælingum Orkustofnunar og Verkfræðistofu Austurlands.

Óli Grétar hefur lokið PhD og MSc gráðu í byggingarverkfræði með áherslu á vatnaverkfræði frá Colorado State University og BSc í eðlisfræði frá Háskóla Íslands.  Óli Grétar er kvæntur Anne-Andrée Bois grafískum hönnuði og eiga þau eina dóttur.