Landsvirkjun
Landsvirkjun
© BIG (VB MYND/BIG)

Landsvirkjun vinnur að því að reisa vindmyllur í tilraunaskyni á milli Sultatangavirkjunar og Búrfellsvirkjunar. Þetta eru tiltölulega litlar vindmyllur. Reisa má mun fleiri vindmyllur víða um land nálægt virkjunum og flutningkerfum, að sögn Óla Grétar Blöndal Sveinssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar.

Óli Grétar sagði í erindi sem hann hélt á haustfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, að vatnsafl og jarðvarmi séu takmarkaðir orkuauðlindir og telji hann að búið verði að fullnýta orkukostina eftir 15 ár.

Á sama tíma taldi hann nýtingu vindorku raunhæfan kost. Hér séu svipaðar aðstæður og í Noregi og Skotlandi, jafnvel betri á vissum stöðum á landinu. Þá munar um að nýtingartími vindorku hér er tvöfalt meiri en heimsmeðaltalið. Það jákvæða við byggingu vindmylla er að þær eru umhverfisvænni en aðrir virkjanakostir, áhrif á umhverfið tiltölulega lítil og framkvæmdir afturkræfanleg.

Á sama tíma er þetta dýr kostur, að sögn Óla Grétars. Stofnkostnaður hefur hins vegar lækkað um 20% á síðastliðnum 5 árum og muni gera áfram. Þegar raforkuverð hækki á sama tíma verði beislun vindorku raunhæfari kostur en áður.