Feðgarnir Óli Jón Gunnarsson og Bergþór Ólason gengu í dag frá kaupum á öllu hlutafé í Loftorku í Borgarnesi. Fyrir áttu þeir 30% hlut í fyrirtækinu en hafa nú keypt út fimm aðra eigendur sem tóku þátt í endurreisn fyrirtækisins haustið 2009.

Frá þessu er greint á vef Skessuhorns.

Óli Jón er framkvæmdastjóri Loftorku og hefur starfað hjá fyrirtækinu með hléi frá 1984. Bergþór er fjármálastjóri Loftorku og hóf störf þar sumarið 2009.

Á vef Skessuhorns kemur fram að þeir fjármunir sem fara í kaup þeirra feðga komi annarsstaðar frá en úr fyrirtæki þannig að kaupin sem slík skerði ekki fjárhagslega getu Loftorku.

„Það eru ánægjuleg tíðindi fyrir okkur feðgana að þetta hafi gengið í gegn. Um leið og ég fagna þessum áfanga vil ég nota tækifærið og þakka þeim hluthöfum sem komu að félaginu við endurreisn þess sumarið 2009, fyrir gott samstarf. Það var ekki átakalaust að tryggja að félagið væri yfir höfuð til eftir það gjörningaveður sem gekk yfir byggingaiðnaðinn í kjölfar bankahrunsins,“ segir Óli Jón í samtali við Skessuhorn.

Loftorka Borgarnesi hefur um árabil verið stærsti framleiðandi forsteyptra eininga hér á landi, ásamt því að vera helsti steinröraframleiðandi landsins. Í dag starfa rétt um 60 manns hjá fyrirtækinu en fjöldinn fór niður í 45 þegar fæst var eftir hrunið.

Sjá nánar á vef Skessuhorns.