KOM ráðgjöf hefur fengið blaðamanninn Óla Kristján Ármannsson til liðs við sig sem ráðgjafa í almannatengslum og útgáfu.

Óli Kristján hefur starfað sem blaðamaður á Fréttablaðinu síðustu 12 árin, en þar hefur hann meðal annars sinnt vaktstjórn og verið í hópi leiðarahöfunda blaðsins síðustu ár, auk hefðbundinna fréttaskrifa.

Um tíma gengdi hann stöðu viðskiptaritstjóra blaðsins, en síðustu misserin hefur hann haldið utan um fréttir af vinnumarkaði. Um árabil hefur hann skrifað fréttir af viðskipta- og efnahagslífinu og var hann jafnframt umsjónarmaður Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagslíf.

Áður starfaði Óli Kristján sem blaðamaður innlendra frétta á Morgunblaðinu sem og hann ritstýrði tímaritinu Tölvuheimur-PC World á Íslandi 2002 til 2004. Hann hefur setið í stjórn Blaðamannafélags Íslands síðustu átta árin, þar af sem varaformaður félagsins frá árinu 2013.

Árið 2001 lauk Óli Kristján námi í Hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands, en árin 2006 og 2007 sat hann námskeið í rannsóknarblaðamennsku og ritstjórn í Háskólanum í Reykjavík.

Árið 1994 lauk hann BA-námi í ensku frá HÍ. Óli Kristján býr með eiginkonu sinni Guðfinnu Gunnarsdóttur framhaldsskólakennara og börnum þeirra á Selfossi.