Óli Halldórsson, varaþingmaður og sveitastjórnarmaður Vinstri grænna í sveitstjórn Norðurþings mun bjóða sig fram til embættis varaformanns Vinstri grænna að því er kemur fram í tilkynningu.

Nú þegar hefur Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, boðað framboð til varaformanns , en núverandi varaformaður flokksins, Björn Valur Gíslason hyggst ekki bjóða sig fram aftur.

„Mikill hljómgrunnur er í samfélaginu fyrir skýrum áherslum Vinstri grænna og hefur hreyfingin fest sig í sessi sem eitt öflugasta stjórnmálaafl á Íslandi. Nú er lag til frekari sóknar fyrir hreyfinguna. Næsta vor fara fram sveitarstjórnarkosningar og er mikilvægt að flokkurinn nýti þau sóknarfæri sem hann hefur. Þá er einnig eðlilegt að í forystu flokksins veljist fólk með sæti í sveitarstjórn til að liðsinna við undirbúning kosninganna,“ segir í tilkynningu frá Óla.

Óli er menntaður í heimspeki, umhverfisfræði og uppeldisfræði og er alinn upp og búsettur á Húsavík. Óli er forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga.