Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði í gær í kjölfar vaxandi spennu á milli íranskra stjórnvalda og stórvelda Vesturlanda og frétta um minni birgðastöðu í Bandaríkjunum. Olíuverðið fór yfir 63 Bandaríkjadali í gær og hefur ekki farið hærra á þessu ári.

Stórveldin fimm sem fara með neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna samþykktu um helgina að beita klerkastjórnina í Tehrean harðari þvingunaraðgerðum vegna áframhaldandi kjarnorkuáforma. Krafa stórveldanna er að Íranar láti af auðgun úrans en forseti landsins, Mahmoud Ahmadinejad, ítrekaði um helgina að slíkt kæmi ekki til greina. Áhyggjur manna um að átök kunni að brjótast í Persaflóa jukust ennfremur um helgina sökum þess að íranskir hermenn handsömuðu fimmtán breska hermenn sem þeir saka um að hafa rofið landhelgi Írans. Bresk stjórnvöld vísa því hinsvegar á bug og segja hermennina hafa verið í írösku landhelginni. Maouchehr Mottaki, utanríkistráðherra Írans, sagði á sunnudag að hermennirnir yrðu hugsanlega lögsóttir fyrir að hafa farið inná íranskt hafsvæði með ólöglegum hætti. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur varað klerkastjórnina við því að handtaka bresku hermannanna sé óréttlát.