Markaðsverð Brent hráolíu er 32,3 bandaríkjadalir við skrif þessarar fréttar, og fer að öllum líkindum lækkandi, ef marka má greiningardeildir Morgan Stanley.

Að mati greiningaraðila fjárfestingarbankans mun styrking bandaríkjadals verða til þess að verð á Brent-hráolíu lækkar niður í litla 20 dali á tunnu, en það gerðist síðast árið 2002. Því gæti svo farið að olíuverð hafi aldrei verið jafn lágt í 14 ár.

Morgan Stanley telur að verðfall olíunnar muni verða um 20-25% ef dalurinn styrkist um 5%. Samkvæmt bankanum er það offramboði á heimsmarkaði að kenna að olíuverð fór undir 60 bandaríkjadali, en öll lækkun undir það sé bundin gengi bandaríkjadalsins.

Olíuverð hefur fallið um rúm 11% það sem af er ári. Ekki bætir úr skák að vörubirgðir til fimm ára í Bandaríkjunum standa í 100 milljónum tunna fram yfir þarfir.

Þessu ofan á að bæta hefur OPEC, samband olíuframleiðsluríkja, gefist upp á hámarksframleiðslumörkum sínum, sem gæti ef til vill ýtt undir enn meira offramboð á heimsmarkaðnum.