*

föstudagur, 28. janúar 2022
Erlent 3. desember 2016 18:22

Olía hækkar um 14% á þremur dögum

Hráolía kláraði daginn í gær í 17-mánaða hámarki eftir 14% hækkun frá samkomulagi OPEC ríkjanna á miðvikudaginn.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Lokagengi hráolíu var 51,68 Bandaríkjadalur á hverja tunnu við lokun markaða í gær. Um er að ræða hæsta lokagengi á hráolíu í 17 mánuði. Olían náði 13-ára lágmarki í Febrúar þegar hún fór í 26 dollara en er nú orðin tæplega tvöfalt hærri. CNN Money greinir frá.

Samkomulag OPEC ríkjanna síðastliðinn miðvikudag blés lífi í olíumarkaðinn á ný, en þar var samið um að minnka olíuframleiðslu um 1,2 milljón olíuföt á degi hverjum í 32,5 milljón. Þetta er í fyrsta skipti í 8 ár sem ríkin draga saman framleiðslu á hráolíu. Væntingar á Wall Street fyrir fund ríkjanna höfðu verið fremur svartsýnar.

Brent-hrávöruvísitalan hækkaði um 14% milli miðvikudags og lokun markaða í gær. Fjárfestar vænta þess að samkomulagið muni draga úr þeirri ofgnótt á olíuframboði sem olli því að olíuverð lækkaði á fyrri hluta ársins til að byrja með.

Stikkorð: OPEC Hráolía