Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag og voru helst orkufyrirtæki annars vegar og námufyrirtæki hins vegar sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar en bæði olía og málmur hefur hækkað í verði í dag.

Rio Tinto, Xstrata, BHP Billiton og Anglo American hafa öll hækkuðu öll á bilinu 7,3 – 8,4% í dag svo dæmi séu tekin.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði í dag um 1,8% og hefur því hækkað um 3,2% í vikunni eftir mikla rússíbanaferð.

Á mánudaginn hækkaði vísitalan nokkuð eftir að ljóst var um yfirtöku yfirvalda í Bandaríkjunum á fjárfestingalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac. Alla hina daga lækkuðu hlutabréf hins vegar þangað til í dag eins og fyrr segir.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,8%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan einnig um 1,8% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,9%.

Í París og í Sviss hækkuðu CAC 40 og SMI vísitölurnar um 2%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,4%, í Osló hækkaði OBX vísitalan um 3,7% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 2%.

Rétt er að geta þess að í Osló hefur OBX vísitalan hækkað alla vikuna þrátt fyrir lækkanir annars staðar í Evrópu og hefur vísitalan nú hækkað um 4,9% í vikunni að sögn Reuters.