Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað í morgun og stendur nú í 72,49 dollurum á tunnu hjá Brent í London. Í New York hefur verðið líka lækkað frá því í gær og er nú 73,12 dollarar á tunnu. Spár um að verðið myndi haldast í kringum 80 dollara á tunnu á síðustu vikum ársins viðast því ekki ætla að rætast.

Á hrávörumarkaði í London var opnunarverðið í morgun 72,99 dollara. Í viðskiptum innan dagsins hefur það komist hæst í 73,37 dollara, en lægst í 72,24 dollara á tunnu.

Á fundi olíuríkja OPEC sem nú stendur yfir í Angola hafa menn lýst áhyggjum yfir að efnahagsbatinn í heiminum láti standa á sér. Er m.a. bent á hlutabréfamarkað í Shanghai sem standi nú lægra en fyrir sjö vikum. Aftur á móti virðist meiri bjartsýni á Japansmarkaði að því er fram kemur í frétt AFP. Jose Botelho de Vasconcelos, olíumálaráðaherra Angola, sagði að efnahagsbatinn væri að komast á skrið, en efasemdir væri þó uppi um kraftinn í þeim bata.