Olíuverð hefur haldið áfram að lækka á mörkuðum í morgun og var komið niður fyrir 46 dollara í morgun á bandarísku viðmiðunarverði. Olíuverð hefur nú lækkað þrjá daga í röð, eftir nánast stanslausa hækkun í mánuðinum. Kemur lækkunin til meðal annars vegna aukins framboðs á olíu frá Írak, en mikilvægar olíulindir hafa á ný hafið framleiðslu á olíu. Hækkandi olíuverð hefur verið ein helsta ástæða lækkunar á hlutabréfamörkuðum að undanförnu og hefur lækkunin í síðustu viku á olíu því virkað sem vítamínsprauta á markaðinn, en töluverð hækkun varð á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku.

Í Morgunkorni Íslandsbanka var bent á að flestir virðast telja að olíuverð verði þó áfram hátt á næstunni í sögulegu ljósi. Ólíklegt er að þær ástæður sem gefnar hafa verið fyrir hærra olíuverði muni breytast í bráð. Að minnsta kosti ef marka má hagvaxtarspár fyrir Kína og helstu iðnríki. Til viðbótar þá er reiknað með áframhaldandi ólgu í Mið-Austurlöndum. Ekki er þó útilokað að skörp lækkun muni eiga sér stað, t.d. ef mikil hagnaðartaka á sér stað af hálfu markaðsaðila segir í Morgunkorni.