Hráolíuverð heldur áfram að stíga á heimsmarkaði og hefur komist upp undir 66 dollara á tunnu á markaði í New York í dag. Samkvæmt frétt Bloomberg hækkaði verðið eftir að alþjóðlega orkumálaskrifstofan IEA lækkaði tölur um áætlaða framleiðslu olíuríkja utan OECD.

Olía til afgreiðslu í september hækkaði um 94 cent í dag eða um 1,5% og fór í 65,84 dollara við lokun markaðar (New York Mercantile Exchange) í dag. Er verðið þá 47% hærra en fyrir einu ári.

Í London var olíuverð skráð hjá Brent crude-oil futures til afgreiðslu í september á 65,49 dollara á tunnu. Fór verðið þar hæst í 65,66 dollara á tunnu í dag sem er það hæsta síðan 1988 þegar slík viðskipti hófust.

Spá IEA var lækkuð um 200.000 tunnur á dag, einkum vegna lokna á vinnslu í Mexíkóflóa vegna óveðurs og einnig á Norðursjó. Framleiðslan mun vaxa hægar en áætlað var fyrir einum mánuði. Citigroup Inc.,stærsta fjármögnunarþjónustufyrirtæki heims hækkaði spá sína um olíuverð í dag vegna þess að engin innistæða væri nú í framleiðslunni til að mæta aukinni eftirspurn. Doug Leggate háttsettur olíusérfræðingur hjá Citigroup í New York segir að jafnvægi verði ekki náð fyrr en eftir þrjú eða fjögur ár.

Ellefu olíuríki innan samtaka OPEC dæla nú upp eins mikilli olíu og þau geta til að reyna að byggja upp olíubyrgðir fyrir seinni hluta ársins þegar eftirspurnin er talin muni ná hámarki. Hefur OPEC aukið framleiðslu sína um 285 þúsund tunnur á dag sem þýðir að framleiðslan er að meðaltali yfir síðasta mánuð 29,6 milljónir tunna á dag.

Umframafkastageta olíuframleiðsluríkjanna er nú aðeins talin vera um 2%, en hefur verið um 5% undanfarin tíu ár. Hagkerfi heimsins eru þó talin hafa brugðist betur við olíuverðshækkunum en spáð var. Er ástæðan m.a. nefnd sú að olía sé ekki eins ríkjandi þáttur í hagkerfi Bandaríkjanna og áður. Skýringin er sú að því lengur sem olíuverð helst hátt þeim mun hraðar minnki eftirspurnin eftir olíu.