Verð á hráolíu fór niður í um 40 dali tunnan í gær, sem er nálægt fjögurra ára lágmarki. Þetta gerðist eftir að birtar höfðu verið tölur sem sýndu mestu fækkun starfa í Bandaríkjunum frá árinu 1974, að því er segir í frétt WSJ.

Tölurnar um vinnumarkaðinn urðu einnig til að valda mikilli verðlækkun almennt á hrávörumarkaði og hlutabréfamarkaði. Hlutabréf tóku þó við sér á ný og höfðu hækkað talsvert í lok dags.

Fyrir ári var olíuverð í um 90 dölum en nú er lítið sem stendur í vegi fyrir því að verðið fari undir 40 dali fyrir fund OPEC 17. desember, að því er WSJ hefur eftir Darin Newsom, greinanda hjá markaðsupplýsingafyrirtækinu DTN.

WSJ segir að búist sé við að OPEC samþykki samdrátt í framleiðslu, en með áframhaldandi efnahagssamdrætti sé óvíst hvort samdráttur í framleiðslu nægi til að jafna samdrátt í eftirspurn. Þá er bent á að aðildarríki OPEC hafi ekki að fullu farið að samþykktum um samdrátt framleiðslu frá því í október.