Eftirspurn eftir olíu mun aukast um eina milljón tunna á heimsvísu á dag á næsta ári. Eftirspurnin í þróunarlöndunum svokölluðu mun halda meðaltalinu uppi. Þetta kemur fram í spá Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnari (IEA) og fjallar breska viðskiptablaðið Financial Times um málið. Fram kemur í spánni að eftirspurnin verði í raun meiri í þróunarlöndunum en hjá iðnríkjunum í hinum vestræna heimi og verður þetta í fyrsta sinn sem slíkt gerist.

Í spánni kemur m.a. fram að draga muni lítillega úr eftirspurn eftir hráolíu á þessu ári. Gert er ráð fyrir því að hún taki kipp eftir áramótin. Vöxtur mun hins vegar ekki verða nándar nærri jafn mikill og áður en fjármálakreppan skall á en um svipað leyti rauk verð á hráolíu upp úr öllu valdi.