Í dag fór olíuverðið upp fyrir 70 dollara á mörkuðum í London og New York. Miklar vangaveltur eru nú uppi í orkugeiranum hvort olíuverð kunni að halda áfram að hækka mjög snarlega með skelfilegum afleiðingum fyrir efnahagskerfi heimsins.

Hefur al-Naimi olíumálaráðherra Saudi Arabíu varað við því að of litlar fjárfestingar í olíuvinnslu kunni að leiða til þess að olíuverðið rjúki upp í 150 dollara á tunnu eða jafnvel meira.

Á vefsíðu Energy Bulletin er því velt upp í þessu samhengi dag hvað heimsmarkaðurinn þoli hátt verð á olíu. Þá ekki síst Bandaríkjamarkaður.

Vísað er í rannsóknir Steven Kopits hjá Douglas Westwood Energy sem segir að á síðustu 37 árum hafi Bandaríkin gengið í gegnum sex efnahagsniðursveiflur. Allar hafi þeir hafist eftir að olíunotkun náði sem svaraði 4% af landsframleiðslu. Núverandi efnahagslægð hafi hafist innan tveggja mánaða frá því þessu marki var náð og olíuverðið náði 80 dollurum á tunnu.

Þá bendir Kopits á að í hvert einasta sinn sem olíuverð hafi hækkað um meira en 50% á milli ára, þá hafi efnahagslægð fylgt í kjölfarið. Hans niðurstaða er því sú að nú fari olíuverð hækkandi. Sterk söguleg vísbending sé um að þolmörk efnahagskerfisins í Bandaríkjunum séu við 80 dollara á tunnu. Þegar því marki verði náð fylgi niðursveifla í efnahagslífinu.