Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir mikilvægt að opinber fyrirtæki virði leikreglur samkeppnisréttarins, enda reyni í vaxandi mæli á tilvik þar sem einkaaðilar eru í samkeppni við hið opinbera. Í yfirlýsingu frá Samtökum iðnaðarins er fjallað um nýlegan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að Sorpa bs. hafi gerst sek um misnotkun á markaðsráðandi stöðu var staðfestur. Var Sorpa dæmd til að greiða 45 milljóna króna sekt.

Snerist málið um að Sorpa hafði veitt eigendum sínum, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og Sorpstöð Suðurlands bs., hærri afslætti en öðrum viðskiptavinum, s.s. sorphirðufyrirtækjum.

Í yfirlýsingunni segir að SI fagni niðurstöðu héraðsdóms. Það verði að teljast með öllu ólíðandi að fyrirtæki í almenningseigu misnoti sér stöðu sína á markaði með þessum hætti, er haft eftir Almari í yfirlýsingunni. Hann segir að umhverfi í sorphirðu og meðhöndlun úrgangs hafi breyst hratt og æ algengara sé að slík starfsemi þrífist í eðlilegu samkeppnisumhverfi. Mikil samkeppni ríki á sorphirðumarkaði og það sé því afar mikilvægt að fyrirtæki, sem sé í eigu sveitarfélaga og með markaðsráðandi stöðu virði leikreglur samkeppnisréttarins. Slík starfsemi eigi ekki að vera undanskilin ákvæðum samkeppnislaga.“