Í yfirlýsingu frá Ingu Sæland, Oddnýju Harðardóttur og Silju Dögg Gunnarsdóttur segjast þær líta nýleg ummæli sem tekin voru upp úr einkasamtali nokkurra þingmanna alvarlegum augum. Vilja þau að málið sé tekið upp í forsætisnefnd Alþingis, og minna á siðareglur Alþingis.

Um er að ræða ummæli sem bæði DV, Stundin og Vísir hafa haft upp úr upptöku, sem þingmennirnir vissu ekki af, af samtali á barnum Klaustri við hlið Alþingishússins, en þar voru samankomnir nokkrir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins af báðum kynjum.

Segja þær ummælin lýsa skammarlegum viðhorfum til kvenna og algerlega ólíðandi kvenfyrirlitningu. Karlar í valdastöðum eigi ekki að tjá sig á jafn niðrandi hátt um konur og samkynhneigða.

„Þá skiptir einu hvort um er að ræða pólítíska andstæðinga eða samherja,“ segir m.a. í yfirlýsingunni, en um er að ræða þá Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson hjá Flokki fólksins og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Pálsson, Gunnar Braga Sveinsson og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur hjá Miðflokknum.

Þess má geta að bæði Karl Gauti og Gunnar Bragi hafa beðist afsökunar á ummælum sínum bæði í yfirlýsingum og fréttum.
Inga Sæland er formaður Flokks fólksins, Oddný er formaður þingflokks og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og Silja Dögg Gunnarsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins.

Hér má sjá yfirlýsingu þingkvennana:

„Ummæli þau sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla 20. nóvember á Klaustri lýsa skammarlegum viðhorfum til kvenna og við lítum þau verulega alvarlegum augum.

Það er algjörlega ólíðandi að karlar í valdastöðum sýni slíka kvenfyrirlitningu og tjái sig á jafn niðrandi hátt um konur og samkynhneigða. Þá skiptir einu hvort um er að ræða pólitíska andstæðinga eða samherja.

Ummæli þessi opinbera viðkomandi þingmenn og dæma sig sjálf. Hegðun þeirra er ekki til þess fallin að auka virðingu almennings á Alþingi eða á stjórnmálamönnum og setur samstarf og trúnað í uppnám. Við fordæmum ummælin og munum óska eftir því að málið verði tekið upp í forsætisnefnd.

Að lokum viljum við minna á eftirfarandi siðareglur sem við þingmenn höfum öll undirgengist:

Meginreglur um hátterni.
5. gr.
Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar:
a. rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, b. taka ákvarðanir í almannaþágu, c. ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni, d. nýta þá aðstöðu sem þeim er veitt við störf sín með ábyrgum hætti, e. ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra, f. greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra og leggja sig fram um að leysa úr árekstrum sem upp kunna að koma með almannahag að leiðarljósi, g. efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna frumkvæði og fordæmi.“

Hér má sjá yfirlýsingu Karl Gauta:

„Ég harma ummæli sem ég lét falla á veitingastað fyrir stuttu síðan og hafa birst í nokkrum fjölmiðlum. Af því tilefni vil ég taka fram að ég er ekki á förum úr Flokki fólksins, styð stefnu flokksins og ber traust til formanns hans, Ingu Sæland. Við höfum unnið að einurð fyrir kjósendur okkar og lagt fram mörg góð mál sem við hétum því að vinna að. Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður“

Hópur þingmanna hefur svo sent eftirfarandi erindi til forsætisnefndar vegna málsins:

Við undirrituð óskum eftir því að forsætisnefnd taki upp mál er varðar niðrandi ummæli og háttsemi þingmannahóps sem fjölmiðlar hafa verið að fjalla um síðastliðinn sólarhring.

Þess er óskað að forsætisnefnd vísi þessu erindi til siðanefndar þar sem ummælin og háttsemin stangast á við 5. og 7. reglur siðareglna þingmanna og óski eftir að siðanefnd fjalli um málið og skili forsætisnefnd niðurstöðum hið fyrsta. Það þarf ekki að tíunda ástæðu erindis okkar frekar.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir
Andrés Ingi Jónsson
Ágúst Ólafur Ágústsson
Hanna Katrín Friðriksson
Helga Vala Helgadóttir
Helgi Hrafn Gunnarsson
Jón Steindór Valdimarsson
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Þorsteinn Víglundsson