Það á eftir að koma í ljós hvort flokksráðstefnur flokkanna breyta þeim meginstraumum sem skoðanakannanir undanfarinna mánaða benda til að séu að móta kosningabaráttuna.

Í þeim hefur Obama mælst með meira fylgi en McCain á landsvísu þótt hinn síðarnefndi hafi eitthvað saxað á forskotið að undanförnu.

Fylgi á landsvísu segir ekki alla söguna þar sem til þess að ná kjöri þarf frambjóðandi að tryggja sér 270 kjörmenn sem dreifast á milli ríkja samkvæmt íbúafjölda þeirra og miðað við landslagið núna er ljóst að frambjóðendurnir eiga allt undir þróun mála í þeim ríkjum þar sem ekki liggur fyrir eindreginn stuðningur við annan hvorn þeirra.

Að því er fram kemur á vefsíðunni realclearpolitics.com benda kannanir til þess að Obama sé öruggur með 183 kjörmenn og 45 séu til staðar í ríkjum þar sem kjósendur virðast vera að halla sér að honum. Sambærilegar tölur fyrir McCain eru 142 og 43.

Samanlagt benda því skoðanakannanir til þess að Obama hafi 228 kjörmenn og McCain 185. Miðað við þetta eru 125 kjörmenn frá tíu ríkjum í pottinum og ljóst er að slagurinn kemur að öllu óbreyttu til með að standa um að sigra í þessum ríkjum.

Of snemmt er að álykta nokkuð um líklega þróun í þessum óvissuríkjum. Þó má nefna að Obama hefur sótt í sig veðrið í Flórída, Virginíu og Ohio að undanförnu en þetta eru algjör lykilríki í kosningabaráttunni.

Að sama skapi verður að hafa í huga að repúblikanar hafa ekki lokið flokksþingi sínu og McCain kynnti hið óvænta varaforsetaefni sitt, Sarah Palin, fyrir aðeins nokkrum dögum.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .