Stýrivaxtalækkun miðvikudagsins er ólíkleg til að hafa mikil áhrif að mati aðalhagfræðings Kviku banka, Kristrúnu Frostadóttur. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var harðorður í garð nýlegrar umræðu um aðgerðir Seðlabankans á kynningarfundi í kjölfar ákvörðunarinnar.

Seðlabankastjórinn sagði aðstæður í peningamálum hér á landi ekki sambærilegar við flest önnur lönd, sem væru fyrir löngu komin með stýrivexti niður í eða niður fyrir 0%. Stjórntæki á borð við magnbunda íhlutun og framsýna leiðsögn væru þróuð eftir að þangað væri komið. „Ef við viljum lækka vexti, þá lækkum við stýrivexti. Við förum ekki að berja vaxtarófið með [skuldabréfakaupum] bara sí svona.“

Kristrún bendir hins vegar á að í magnbundinni íhlutun felist meira en bara vaxtaáhrif. „Ég er ekki sammála þeim útgangspunkti að eina markmiðið með því sé að lækka vexti. Magnbundin íhlutun er óhefðbundið verkfæri sem hægt er að grípa í þegar markaðsbrestur er til staðar, óháð því hverjir stýrivextir eru. Í grunninn er þetta prentun peninga til að auka lausafé á markaði.“

Ríkissjóður betur til þess fallinn að miðla fjármagni
Ásgeir sagði aðspurður ríkisfjármálastefnu vissulega skipta miklu máli, sérstaklega til skemmri tíma, en að hann hefði viljað sjá ríkið „fara meira út í fjárfestingu, sem hefði þýðingu fyrir langtímahagvöxt, fremur en tekjufærslur.“

Kristrún segir að hefði Seðlabankinn hvatt ríkissjóð til þess að ráðast í meiri útgjöld, skila peningum á réttu staðina, gefa mun meira út af ríkisskuldabréfum og keypt þau bréf svo upp jafnóðum, hefði ríkissjóður getað beint því fjármagni með mun áhrifaríkari hætti á þá staði sem þess er þörf, í stað þess að fjármagnið renni í gegnum bankakerfið og síist hægt og rólega þar í gegn, eins og raunin hefur verið með núverandi aðgerðir. „Seðlabankinn hefði getað miðlað mun minna lausafé í gegnum bankakerfið, og frekar nýtt það í að kaupa ríkisskuldabréf á markaði. Eins hræðilegt og mörgum finnst orðið miðstýring, þá er það bara það sem þarf til að fylla þær holur sem myndast hafa í kerfinu.“

„Að mínu mati er verið að eiga við kerfisbundinn vanda – risastóran markaðsbrest í rauninni – með hefðbundnum miðlunarleiðum. Ég set stórt spurningamerki við að það komi ekki frekari hvatning frá Seðlabankanum til þess að meira sé lagt í fjármálastefnuna, ekki bara hvað varðar umfang aðgerðanna, heldur í hvað fjármagninu er varið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .