Þrátt fyrir að danski seðlabankinn hafi neyðst til að taka yfir Roskilde Bank í kjölfar glannalegrar fasteignalánastefnu bankans, munu vandamálin á dönskum húsnæðismarkaði ekki verða víðlíka og á þeim bandaríska. Þetta kemur fram á viðskiptavef Berlingske Tidende, business.dk.

Í Danmörku, og á Íslandi einnig, eru húsnæðiseigendur sjálfir ábyrgir fyrir lántökum sínum til húsnæðiskaupa. Í Bandaríkjunum fylgir skuldin hins vegar fasteigninni sjálfri. „Ef greiðslufall verður á húsnæðisláninu fellur það beint á útlánastofnunina,“ segir Peter Kubicki hjá SEB Enskilda í samtali við business.dk.

Þeir húsnæðiseigendur í Bandaríkjunum sem ekki geta lengur greitt af húsinu sínu er því mögulegt að afhenda lánveitandanum húslyklana og losna þannig undan vandamálinu. Bandarískir neytendur geta því byrjað aftur með hreinan skjöld, ef svo má að orði komast, með því að setja húslyklana í umslag og senda bankanum.