Framsókn, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Viðreisn – fjórir af þeim átta flokkum sem fengu menn kjörna á þing í nýafstöðnum kosningum – hyggjast draga úr samkeppnisrekstri hins opinbera, samkvæmt könnun Samtaka iðnaðarins .

Vinstri grænir og Flokkur fólksins sögðust ekki áforma slíkt, en Píratar og Samfylking svöruðu ekki spurningunni. Sósíalistaflokkurinn, sem ekki náði manni á þing, svaraði ekki spurningalistanum.

Einnig var spurt hvort til stæði að auka samkeppniseftirlit með starfsemi opinberra fyrirtækja, og svöruðu allir flokkarnir því játandi nema VG, sem ekki vildi svara.

Alls voru sjö spurningar í könnuninni. Allir flokkar sögðust vilja skapa stöðugleika í starfsumhverfi fyrirtækja og vinna að því að einfalda regluverk og draga úr óþarfa reglubyrði, og allir nema VG, sem ekki svaraði, sögðust myndu hafa áhrif á atvinnulífið og samkeppnishæfni landsins til hliðsjónar við setningu nýrra reglna. Þá sögðust allir nema VG ætla að beita fjármálum ríkisins „af fullum þunga“ til að skapa viðspyrnu hagkerfisins.

Samtökin gera skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans um áhrif opinberra fyrirtækja á samkeppni að sérstöku umtalsefni í frétt á vef sínum um málið, en Viðskiptablaðið fjallaði einnig um hana í síðasta tölublaði.