Mikael Torfason var fyrir stuttu ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins við hlið Ólafs Stephensen sem gegndi ritstjórastöðunni einn áður. Ráðning Mikaels er umdeild svo ekki sé fastar að orði kveðið en í kjölfar ráðningar hans hætti meðal annars Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, störfum en hún hafði starfað hjá blaðinu frá upphafi þess. Mikael var ekki lengi ritstjóri á Fréttatímanum en hann hóf störf þar um mitt síðasta ár. Áður en hann fór yfir til Fréttatímans hafði hann einbeitt sér að öðrum verkefnum. Til að mynda gaf hann út bókina Vormenn Íslands árið 2009 og þá þýddi hann leikritið Fyrirheitna landið – Jerúsalemsem nú er sýnt í Þjóðleikhúsinu.

Flestir þekkja að einhverju leyti til starfa Mikaels sem ritstjóra DV en hann starfaði þar við hlið Illuga Jökulssonar um tíma og síðar kom Jónas Kristjánsson og starfaði við hlið Mikaels. Nokkur meiðyrðamál voru höfðuð vegna umfjöllunar DV en meðal annars fékk Jónína Benediktsdóttir dæmdar 1,2 milljónir í Hæstarétti vegna ummæla í DV um einkalíf hennar. Sérstaklega gustaði um þá Mikael og Jónas í kringum mynd- og nafnbirtingu í DV, vegna umfjöllunar um kynferðisofbeldi gegn ungum drengjum, sem leiddi til þess að þeir Jónas og Mikael sögðu af sér.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofa n.