„Þetta mjakast,“ sagði Guðmundur Þ. Björnsson, verkefnisstjóri Háfells í Héðinsfjarðargöngum, í samtali við Verktakablaðið sl. fimmtudag.

„Við fengum á okkursmá vatn í síðustu viku og losaralegt berg.“

Guðmundur segir að í göngunum á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar hafi reynst fleiri lek og laus jarðlög sem tafið hafi verkið verulega.

„Það eru gangar og misgengi í berginu og mjög mikið um þéttingar og styrkingar.“

Í ljósi þessara áfalla er ljóst að tafir á gangagerðinni eru þegar orðnar miklar og ólíklegt að hægt verði að vinna þær upp á síðasta hluta verksins.

Guðmundur gerir t.d. ekki ráð fyrir að sprengt verði í gegn í Ólafsfjarðarlegg ganganna fyrr en í mars, en upphaflega var reiknað með að sprengingum yrði lokið síðsumars eða nú í haust. Það þýðir væntanlega að verkinu mun ekki ljúka 10. desember 2009 eins og verksamningur gerir ráð fyrir.

Rúmir tveir kílómetrar eftir

Bormenn Metrostav og Háfells í Héðinsfjarðargöngum náðu því marki í fyrri viku að komast yfir þúsund metra markið frá Héðinsfirði í átt að Ólafsfirði.

Á þeim legg voru þá sprengdir 62 metrar og er lengd ganga þeim megin þá orðin um 1.032 metrar. Á fimmtudag voru þeir búnir að sprengja samtals 1.055 metra.

Gangur var hins vegar fremur hægur frá Ólafsfirði sökum lélegs bergs og vatnsrennslis. Voru þar einungis sprengdir 19 metra í fyrri viku en heldur meira í vikunni þar á undan. Var lengd ganga þeim megin orðin 3.613 metrar á fimmtudag, en heildarlengd ganganna frá Ólafsfirði í Héðinsfjörð verður 6,9 kílómetrar.

Af því var búið að sprengja 4.668 metra í síðustu viku og því eftir 2.232 metrar.

Guðmundur segir að bormenn séu ekki ánægðir nema það takist að sprengja 60 til 70 metra á viku, svo ljóst má vera að menn eru ekkert hoppandi kátir með árangurinn.

Vandinn metinn til fjár

Vandinn vegna vatnsleka og lausra jarðlaga í Héðinsfjarðargöngum er augljóslega mun meiri en ráð var fyrir gert í útboði og hefur tafið verkið um marga mánuði.

Verið er að meta hversu mikið tjón verktaka er mikið af þeim sökum, en verksamningurinn hljóðar upp á 5,7 milljarða króna. Búast má við að reynt verði að endurmeta kostnaðartölur í samningum við Vegagerðina vegna ófyrirséðra vandamála.