Lettar gætu hugsanlega tekið evruna upp árið 2012 en þó er líklegra að ekki verði af því fyrr en 2013 að sögn forseta bankastjórnar lettneska seðlabankans, Ilmars Rimsevics.

Þetta kemur fram á vef Baltic Business News.

Rimsevics sagði að jafnvægi í þjóðarbúskapnum hefði úrslitaáhrif á það hversu fjótt hægt yrði að taka upp evruna.

„Eins og sakir standa uppfyllir Lettland ekki skilyrði Maastricht-sáttmálans [fyrir upptöku evru]. Það er ljóst að ríkisstjórnin mun þurfa að taka margar óvinsælar ákvarðanir til þess að ná verðbólgunni niður í 4-5%,“ sagði Rimsevics.

Tólf mánaða verðbólga í Lettlandi mældist 15,7% í ágúst.   Lettnesk stjórnvöld hafa ekki enn gefið upp ákveðna tímasetningu hvenær þau stefna að því taka upp evruna eða sett fram áætlun um það hvernig þau hyggjast standa að innleiðingu hennar.

„Það verður að vera skýr áætlun um innleiðingu evrunnar þannig að það sé ljóst hvað þurfi að gera. Slík áætlun myndi gera bæði þjóðfélaginu í heild og fyrirtækjum sem starfa innan þess ljóst hvernig þetta gengi fyrir sig,“ sagði Rimsevics.

Sjá: http://balticbusinessnews.com/Default2.aspx?ArticleID=3631c6ae-35f3-42c2-aad7-8873749269ba

http://www.baltic-course.com/eng/analytics/?doc=4932