Stjórnvöld hafa enn ekki leitt til lykta samninga við Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninga Landsbankans í löndunum tveimur.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir ólíklegt að það muni takast að ganga frá samningum fyrir jól.

Íslensk stjórnvöld hafa lofað að styðja við Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta vegna Icesave-reikninga í umræddum löndum og kom meðal annars fram í máli utanríkisráðherra á Alþingi að upphæðin næmi samtals um 625 milljörðum króna. Upphæðin miðast við lágmarkstrygginguna sem eru rúmlega 20 þúsund evrur.

Alþingi hefur samþykkt að veita stjórnvöldum heimild til að ganga frá samningum um þetta við Breta og Hollendinga. Samningaviðræður ganga út á að þeir síðarnefndu láni peningana með ábyrgð íslenska ríkisins. Verið er að semja um lengd lánsins, vexti og afborganir.

Ekki liggur enn fyrir hvað fæst upp í Icesave-skuldbindingarnar.

Viðskiptablaðið hefur ítrekað reynt að ná í formann skilanefndar Landsbankans við vinnslu þessarar fréttar, og skilið eftir skilaboð í síma og með tölvupósti. Hann hefur ekki ansað þeim.

Nánar er fjallað um þetta mál í Viðskiptablaðinu í dag