Nefnd sem unnið hefur á vegum stjórnar Boeing, við að bæta verkferla og tryggja öryggi afurða fyrirtækisins, skilar niðurstöðum sínum til stjórnar í vikunni. Nefndin leggur til talsverðar breytingar sem miða að því að tryggja að ekki komi upp annað 737 Max fíaskó. Loftferðaeftirlit utan Bandaríkjanna telja tæpt að áætlanir um afléttingu kyrrsetningar á þessu ári muni standast.

Nefndin hefur verið að störfum frá því í apríl en hún var skipuð í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa sem rekja mátti til hönnunargalla í 737 Max. Það fyrra átti sér stað í október 2018 þegar flugvél Lion Air hrapaði milli Borneó og Java í Indónesíu. Hið síðara var í mars á þessu ári en þá hrapaði vél Ethiopian Airlines skömmu eftir flugtak frá höfuðborginni Addis Ababa. 189 fórust í fyrra slysinu en 157 í því síðara.

Í kjölfar síðara slyssins hafa 737 Max þoturnar verið kyrrsettar á jörðu niðri um gervalla jarðarkringluna. Athugun á vélunum hefur leitt í ljós nokkra galla tengdum hugbúnaði þeirra. Gallarnir hafa meðal annars áhrif á sjálfstýringarbúnað vélanna og MCAS-kerfið, en hlutverk þess er að koma í veg fyrir að vélarnar ofrísi. Í báðum slysunum var það síðarnefnda kerfið sem brást með fyrrgreindum afleiðingum.

Undanfarna fimm mánuði hefur nefnd innan Boeing skoðað menningu fyrirtækisins. Hlutverk hennar var ekki að skoða 737 Max-vélarnar sérstaklega heldur að kanna ofan í kjölinn hvernig ferlar félagsins eru og hvernig má bæta þá. Nefndin mun formlega skila af sér í vikunni en þrír einstaklingar, sem þekkja til, hafa rætt við New York Times um efni skýrslunnar í skjóli nafnleyndar.

Þrjár tillögur

Meðal tillagna nefndarinnar er að breyta skipuriti framleiðandans. Hingað til hafa verkfræðingar félagsins heyrt bæði undir aðalverkfræðing þess og framleiðslustjórar hverrar týpu fyrir sig. Hefur þeim borið að heyra fyrst í framleiðslustjóranum en því næst í aðalverkfræðingnum. Lagt er til að þessu verði snúi við þar sem mögulegt sé að ákvarðanir framleiðslustjóra séu teknar með tilliti til viðskipta en ekki öryggis.

Önnur breytingatillaga felur í sér að komið verður á fót nýju öryggisteymi sem mun starfa þvert á fyrirtækið til að tryggja upplýsingaflæði. Yfir 100 þúsund starfsmenn starfa hjá Boeing. Höfuðstöðvar félagsins eru í Chicago en meginþorri framleiðslunnar fer aftur á móti fram í Seattle. Örlað hefur á því að upplýsingar skili sér ekki nægilega vel á milli.

Þriðja meginbreytingin felur í sér breytingu á hönnun flugstjórnarklefa véla sem framleiddar verða síðar meir. Eftir því sem verð á flugi hefur orðið viðráðanlegra fyrir neytendur um víða veröld hefur þörfin á flugmönnum aukist. Vill Boeing því tryggja að nýjar vélar félagsins verði aðgengilegri fyrir flugmenn sem mögulega hafa fáa flugtíma á þeim í farteskinu. Frá kyrrsetningu 737 Max vélanna hefur Boeing unnið nær látlaust að úrbótum svo unnt sé að koma þeim í loftið á nýjan leik. Þegar nauðsynlegar úrbætur á hugbúnaði hafa verið gerðar mun það taka um fjóra til sex daga að standsetja hverja kyrrsetta vél áður en hún getur flogið á ný. Áætlanir Boeing hafa gert ráð fyrir því að þær takist á loft sem fyrst á síðasta ársfjórðungi þessa árs en hugbúnaðaruppfærsla MCAS-kerfisins er væntanleg á næstunni. Miðað hefur verið við nóvember í þessu samhengi. Áður en það getur gerst þarf grænt ljós frá bandaríska loftferðaeftirlitinu (FAA).

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .