Ólíklegt er að allar forsendur nýgerðra kjarasamninga haldi út allan gildistíma samninganna og því viðbúið að þeir verði eitthvað endurskoðaðir á samningstímanum, sem er til ársbyrjunar 2014.

Þetta segir í nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar. Samið var um nokkru meiri launahækkanir en gert var ráð fyrir í fyrri spám, sem í fyrstu kann að leiða til aukinnar einkaneyslu.

Þá segir að einkaneyslan virðist í miklum vexti á öðrum ársfjórðungi 2011, en hann verði varla jafn mikill á seinni helmingi ársins. „Mikil örvun sem felst í útgreiðslu viðbótarlífeyris, sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu og nýgerðum kjarasamningum styður við vöxt einkaneyslu til skamms tíma. Fjölgun á vanskilaskrá bendir til greiðsluvanda og ekki er vitað hvort aðlögun skulda heimilanna leiðir til meiri eða minni einkaneyslu eftir að greiðslufrestunum lýkur.“