Inn í umræðuna um lífeyriskerfið fléttast einnig umræða um hvort ekki sé réttara að leyfa einstaklingum að hafa meira um það að segja hvernig þeirra sparnaði er varið. Greiði einstaklingar 4% af launum sínum í séreignarsparnað til viðbótar við samtrygginguna þá rennur sem samsvarar um fimmtungi af launum í lífeyrissjóð.

Lífeyriskerfið mun að óbreyttu halda áfram að stækka næstu áratugi. Eignir lífeyrissjóðanna samsvara nú um 170% af landsframleiðslu og búist er við að hlutfallið fari vel yfir 200%. Hagfræðistofnun hefur spáð því að lífeyrissjóðir muni eiga um 35-40% af heildarfjármunaeign á Íslandi á næstu áratugum.

„Inni í sjóðunum er fólk sem starfar við þetta alla daga og þekkir þetta. Það er ólíklegt að hinn almenni borgari myndi ná jafn góðri ávöxtun ef hann væri að þessu einn og sér. Maður þarf að þekkja svo vel til. Þetta kerfi þar sem þú ert með fagfólk í þessum fjárfestingum er af hinu góða. En þetta er vandrataður meðalvegur að taka nóga áhættu til þess að fá góða ávöxtun en ekki of mikla,“ segir Harpa Jónsdóttir, nýr framkvæmdastjóri LSR.

Harpa segir þetta að vissu leyti pólitíska spurningu hvernig lífeyriskerfið eigi að vera byggt upp.

„Erum við að miða við að sjóðurinn dugi fyrir 50%, 60% eða 70% af launum? Löggjöfin í dag miðast við að lágmarki 56%. Það kemur oft almenningi á óvart. Í suma sjóði hefur verið greitt inn meira en lágmarks greiðsla og þá fær fólk hærra hlutfall af tekjum í eftirlaun út ævina. Það eru ekki allir meðvitaðir um hvað tekjur geta lækkað mikið við að fara á eftirlaun og skamma þá lífeyrissjóðinn fyrir það en þetta er stillt svona af í lögunum.“

N ánar er rætt við Hörpu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .