Það má með sanni segja að Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, stjórnarformanni Já, sé fátt óviðkomandi þegar kemur að íslensku atvinnu- og viðskiptalífi. Hún hefur komið víða við og var m.a. nýlega kjörin formaður Viðskiptaráðs, fyrst kvenna.

Katrín Olga segir niðurstöður nýafstaðinnar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi þar sem þjóðin kaus að ganga út úr Evrópusambandinu hafa komið sér á óvart. „Það sem var sérstakt við niðurstöðuna að mínu mati var að unga fólkið kaus Evrópu á meðan eldra fólkið kaus Brexit og það myndi valda mér áhyggjum ef ég væri við stjórnvölinn í Bretlandi, sem og sú staðreynd að svo naumur meirihluti klýfur þjóðina.“ Hún segir erfitt að sjá fyrir hver áhrifin verði á Ísland og velti það á því hvað taki við – hvort Bretar geri hagfellda viðskiptasamninga við Evrópu og Íslendinga sem greiða fyrir alþjóðaviðskiptum eða hvort að tollmúrar og aðrar viðskiptahindranir muni aukast.

„Til að setja þetta í samhengi námu utanríkisviðskipti Íslands við Breta 240 milljörðum króna árið 2014. Þá hafa yfir 3.000 Íslendingar flust til Bretlands á síðasta áratug á grundvelli frjálsra fólksflutninga. Hér eru því miklir hagsmunir í húfi. Við hjá Viðskiptaráði teljum ólíklegt að Bretar líti til EES-samningsins. Útgönguhreyfingin hefur talað fyrir afnámi frjálsra fólksflutninga og einnig fyrir auknu frelsi til sjálfstæðrar lagasetningar, en EES samrýmist ekki þeim markmiðum. Þetta gæti líka dregið úr aðdráttarafli Bretlands fyrir íslensk fyrirtæki. London hefur hingað til verið óumdeild fjármálamiðstöð álfunnar – og jafnvel heimsins – og okkar aðildarfélagar hafa horft þangað fyrir alþjóðlega fjármögnun. Ef landið einangrast í alþjóðaviðskiptum gæti sú staða breyst. Síðan sér enginn fyrir endann á þessu. Mun niðurstaðan valda því að Norður-Írar og Skotar sækjast eftir sjálfstæði frá Bretlandi? Mun hún valda frekari uppgangi sambærilegra hreyfinga, til dæmis í Frakklandi og Hollandi? Afleiðingarnar af því gætu þýtt frekari áföll fyrir hinn sameiginlega markað.

Hefði viljað sjá þessa ríkisstjórn klára kjörtímabilið

Hvaða augum lítur þú (mögulegar) yfirvofandi kosningar í haust? Hvernig ríkisstjórn vilt þú sjá á næsta kjörtímabili?

„Ég hefði viljað sjá þessa ríkisstjórn klára kjörtímabilið og að hún hefði fengið tækifæri til að ljúka því verki sem hún hóf árið 2013 – en þetta var niðurstaðan og vonandi nást nokkur stór mál að klárast sem skipta máli s.s. aflétting gjaldeyrishafta. Ég ber ennþá þá von í brjósti að okkur takist að horfa til lengri tíma fyrir fyrirtækið Ísland – að kosningarnar í haust snúist um samstöðu um mikilvæg mál s.s. heilbrigðis- og menntamál sem skipta okkur miklu máli. Hér er ekki þörf á að þrasa og þreyta þjóðina, við viljum heilbrigt heilbrigðiskerfi og öflug menntakerfi – það erum við sammála um. Ég vil ríkisstjórn sem hefur þennan skilning og horfir einnig til framtíðar, hefur góðan skilning á umhverfi íslenskra fyrirtækja, umhverfi hvatningar, svigrúms en ekki hindrunar og hræðslu þ.a. að við aukum samkeppnihæfni þjóðarinnar. Ég vil sjá ríkisstjórn sem hefur skilning á því að það þarf að byggja upp þjóðina eftir áfallið árið 2008 og leggur áherslu á það jákvæða í íslensku samfélagi, byggir á víðsýni og hugrekki til þess að taka ákvarðanir sem auka hagsæld allra sem hér búa.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.