Nú liggur fyrir að skattrannsóknarstjóri mun að líkindum kaupa gögn um meint skattaundanskot Íslendinga fyrir 150 milljónir króna. Hins vegar verður að telja ólíklegt að einhver mál verði byggð á þessum gögnum einum saman. Þetta kemur fram í umfjöllun um málið á vefsíðu Nordik lögfræðiþjónustu .

Bernhard Bogason, lögmaður hjá Nordik, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann teldi líklegt að dómstólar myndu taka tillit til sönnunargagna jafnvel þótt ljóst væri að þau hefðu verið fengin með ólögmætum hætti. Sagði hann það miklu skipta varðandi sönnunarmat hvers eðlis gögnin væru og frá hverjum þau stafi auk þess hvort unnt væri að staðfesta þau fyrir dómi.

Ber að hafna notkun gagna sem aflað er með ólöglegum hætti

Í umfjöllun Nordik kemur fram að líklegt verði að telja að skattrannsóknarstjóri sé að kaupa upplýsingar sem hann metur að sé líklegt að leiði til þess að mál verði tekin til rannsóknar og frekari gagna aflað.

Þá er einnig á það bent að samkvæmt siðareglum ákærenda sé kveðið á um það í II. kafla reglnanna um faglega breytni að ákærendum beri m.a. að athuga möguleg sönnunargögn með tilliti til þess hvort þeirra hafi verið löglega aflað, og jafnframt að ákæranda beri að hafna notkun sönnunargagna sem með rökum megi telja að hafi verið aflað ólöglega þannig að alvarlega hafi verið brotið gegn mannréttindum hins grunaða eða annarra, nema gegn þeim sem það gerði.

„Siðferðilega þarf ákærandinn þá að meta hvort stuldur viðkomandi gagna sé alvarlegt brot gegn friðhelgi einkalífs viðkomandi - kannski getur hvert spurt sig hvað honum þættu um að t.d. bankastarfsmenn seldu hæstbjóðanda kreditkortayfirlit þeirra,“ segir í umfjöllun Nordik.

Þarf einnig að líta til CFC-reglna

„Þá er spurning hvort sú staðreynd að ekki var í gildi CFC regla á Íslandi fyrr en á árinu 2010, þ.e. regla sem kveður á um að tekjur erlendra fyrirtækja í lágskattaríkjum beri að skattleggja hjá eigendum þeirra (57. gr. a í lögum um tekjuskatt nr. 90/2003) leiði til þess að verulegur munur sé á Íslandi og öðrum ríkjum varðandi það hvort hagsmunir aðila í lágskattaríkjum hafi verið í samræmi við lög eða ekki og því minni hagsmunir fyrir íslensk yfirvöld að kaupa gögnin en fyrir yfirvöld annarra ríkja þar sem sambærileg regla hefur verið í gildi um árabil,“ segir jafnframt.

Að lokum er því einnig velt upp hvort það að kaupa gögnin geti talist peningaþvætti og varðað við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga ef fyrir liggur að gagnanna var aflað með refsiverðum hætti.