S&P Global Ratings hefur staðfest A/A-1 lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Fregnirnar koma í kjölfarið af því að í síðustu viku hækkaði Moody's lánshæfiseinkunn ríkissjóðs en lagði til að stjórnvöld skoðuðu einkavæðingu fyrirtækja með það að marki að greiða frekar niður skuldir. Var tekið fram að hvergi hefðu ríkisskuldir lækkað hraðar frá heimskreppunni 2008.

Að mati S&P er viðbúið að lítilsháttar samdráttur verði á árinu en að hagvöxtur taki við sér á nýjan leik á næsta ári. Viðnámsþróttur hagkerfsins er metinn traustur. Lánshæfiseinkunnin gæti hækkað ef staða ríkisfjármála og ytri staða þjóðarbúsins styrkist umfram væntingar fyrirtækisins.

„Aftur á móti gæti einkunnin lækkað ef merki koma fram um aukinn greiðslujafnaðarþrýsting eða að fjármálastöðugleika sé ógnað á næstu tveimur árum. Dæmi um slíkt gæti verið ef samdráttur í ferðaþjónustu hefur víðtækari efnahagsáhrif en reiknað er með, með tilheyrandi þrýstingi á greiðslujöfnuð og fjármálakerfið, þ.m.t. á útlánastarfsemi lífeyrissjóða,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins .

Í tilkynningu S&P er þess getið að Ísland sé sem stendur á gráum lista FATF samtakanna. Að mati matsfyrirtækisins er ósennilegt vistin á listanum muni hafa tilfinnanleg áhrif á fjármálakerfið eða fjármálafyrirtæki þar sem viðbúið er að stjórnvöld muni snarlega grípa til aðgerða til að losna af téðum lista.