Mikið þarf að ganga á telji Samkeppniseftirlitið stöðu Haga-samsteypunnar slíka á markaði að ákveðið verði að skipta fyrirtækinu upp, að mati Ara Freys Hermannssonar, sérfræðings hjá IFS Greiningu. Hann var spurður um líkurnar á því á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, um væntanlega skráningu Haga á hlutabréfamarkað að Samkeppniseftirlitið grípi inn í rekstur fyrirtækisins og ákveði í ljósi stöðu Haga á markaði, að skipta því upp.

Ari taldi það ólíklegt.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitisins, hefur sagt stofnunina vilja beita sér fyrir því í meiri mæli en áður að skipta upp fyrirtækjum þyki tilefni til.

Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, sem tók meirihluta hlutafjár Haga yfir í fyrra gerði samkomulag við Samkeppniseftirlitið í vor sem fól í sér að rekstur klukkuverslananna 10-11 var seldur út úr Haga-samstæðunni.