*

föstudagur, 24. janúar 2020
Innlent 30. mars 2017 18:55

Ólíklegt að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði

Almar Guðmundsson veltir því fyrir sér hvort ætlunin sé að ýta ungu fólki út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gríðarlegur munur er á lóðaverði á þéttingarsvæðum og í úthverfum. Á Laugavegi er lóðaverð um 55% af söluverði og á öðrum þéttingarsvæðum innan höfuðborgarinnar er hlutfallið 38%. Í úthverfunum er lóðaverðið aftur á móti 13% af söluverði.

Þetta kom fram í erindi sem Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hélt á fundi Íbúðalánasjóðs og Byggingavettvangsins í dag. Um 130 manns sátu fundinn en efnt var til hans til að ræða hvernig hægt væri að byggja ódýr hús til að leysa bráðavandann á húsnæðismarkaði.

Almar velti því upp hvort ætlunin væri að reyna að ýta ungu fólki út fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið. Verðmunurinn á fasteignum reki þau til að kaupa í nágrannasveitarfélögum þar sem myndarleg uppbygging sé í gangi, svo sem í Árborg og í Reykjanesbæ.

Hann bætti við að það væri ekki aðeins dýrara að byggja á þéttingarsvæðum heldur tæki það helmingi lengri tíma.Eins og staðan væri nú þyrfti að sjá til þess að uppbyggingin yrði sem fjölbreyttust. Hann greindi frá því að ungu fólki sem enn býr heima hjá foreldrum sínum hafi fjölgað um 60% á síðustu níu árum.

Árið 2005 bjó 10% fólks á aldr­in­um 25 til 34 í foreldrahúsum en árið 2014 var hlut­fallið komið í 14%. Fjölgunina mætti helst skýra með skorti á húsnæði og háu fasteignaverði og sagði Almar brýnt að mæta hús­næðisþörf ungs fólks með sem hag­kvæm­ustum hætti.

Þrátt fyrir að tölur um hús­næðis­fram­kvæmd­ir hjá Reykja­vík og ná­granna­sveitar­fé­lög­um gefi til kynna að það horfi til betri vegar í þessum efnum segist Almar telja ólíklegt að jafn­vægi verði komið á markaðinn eft­ir þrjú til fjög­ur ár.

Stikkorð: Fasteignir ÍLS SI Almar Markaður