Ólíklegt er að mati Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, að Landsbankinn hafi brotið lög með tilboði sínu um endurgreiðslu vaxta til skilvísra viðskiptavina. Hann segir þó nauðsynlegt að skoða aðgerðirnar til hlítar.

Í samtali við Fréttablaðið segir Steingrímur jafnframt að aflað verði upplýsinga um aðgerðirnar og þær skoðaðar enda sé það fullkomlega eðlilegt. Athuga þurfi hvort aðgerðirnar séu innan þess ramma sem búið var að marka fjármálastofnunum. Rými til endurgreiðslu vaxta sé lítið og við venjulegar aðstæður gæti frekari skuldaeftirgjöf falið í sér skattlagningu.