Mohammed al-Madi, olíumálaráðherra Sádí-Arabíu, telur að erfitt verði að ná verði á olíutunnu aftur upp í 100 til 120 Bandaríkjadali. BBC News greinir frá þessu.

Al-Madi er fulltrúi Sádí-Arabíu í Opec-samtökunum, en hann segir olíustefnu landsins ekki orsakast af pólitískum ástæðum. Sádí-Arabía er stærsti olíuframleiðandinn innan Opec og hefur verið sakað um leyfa verðinu að falla til þess að halda markaðshlutdeild sinni.

Íranir hafa til dæmis gagnrýnt landið fyrir að styðja ekki við hækkun olíuverðs með minni framleiðslu. Þá hefur því verið fleygt fram að mikilli framleiðslu ríkisins sé ætlað að hafa áhrif á leirsteinsolíuiðnað í Bandaríkjunum, sem hefur verið á hraðri uppleið undanfarin ár.

„Við erum ekki á móti framleiðslu Bandaríkjanna á leirsteinsolíu. Þvert á móti tökum við henni fagnandi þar sem hún kemur jafnvægi á markaðinn til lengri tíma litið,“ segir al-Madi.