Ekki er líklegt að aðildarríki OPEC ákveði að draga úr olíuframleiðslu sinni á næsta fundi sem haldinn verður í júní. Þetta segir Rokneddin Javadi, olíumálaráðherra Írans, í viðtali við Reuters fréttastofuna .

Íran og Venesúela hafa kallað eftir því að OPEC dragi úr framleiðslunni til þess að ná upp verði á olíu, en það hefur haldist mjög lágt frá síðasta sumri. Það hefur valdið ýmsum löndum, sem að miklu leyti reiða sig á tekjur frá olíuframleiðslu, nokkrum erfiðleikum. Javadi segir að Íran muni halda áfram þrýstingi á OPEC um að draga úr framleiðslunni.

Hann segir jafnframt að Íranir vonist til þess að auka útflutning á olíu eftir að viðskiptabanni, sem lagt var á þá vegna kjarnorkudeilunnar, verði aflétt. Segir hann vonir standa til þess að útflutningurinn verði hinn sami og áður en viðskiptabannið var lagt á, eða sem nemur 2,5 milljónum olíutunna á dag.