Peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna mun funda í vikunni um hvort ákveðið verði að draga úr eignakaupum bankans á bandarískum skuldabréfum.

Bankinn hóf mánaðarleg kaup á eignum til að keyra niður vaxtastigið í Bandaríkjunum eftir að stýrivaxtalækkanir bankans höfðu ekki skilað árangri í að örva hagkerfið í byrjun árs 2009. Mánaðarleg kaup bankans hafa verið um 85 milljarðar bandaríkjadollara.

Undir lok sumar lýsti Seðlabankinn því yfir að ef hagkerfið færi að taka við sér á ný myndi bankinn draga úr kaupunum og þar með leyfa vaxtastiginu að hækka á ný.

Fréttastofan CNN greinir frá því að fjárfestar vestanhafs telji þó ólíklegt að Seðlabankinn ákveði á fundi sínum að hætta skuldarbréfakaupunum en lokanir ríkisstofnana í tengslum við deilur í bandarískaþinginu fyrr í mánuðinum höfðu neikvæðan áhrif á hagvöxt í Bandaríkjunum. Því eru forsendur fyrir hækkandi vöxtum ekki lengur til staðar að mati fjárfesta. Þá er jafnvel talið að ekkert dragi úr kaupum seðlabankans á skuldabréfum þar til næsti bankastjóri, Janet Yellen, tekur við í upphafi næsta árs.

AGS óttast vaxtahækkanir

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áður varað við þeirri hættu sem stafar af hækkandi vaxtastigi í Bandaríkjunum en talsverður fjármagnsflótti er nú þegar hafin frá nýmarkaðsríkjum í Asíu þar sem fjárfestar hafa fram til þessa sótt í hærri vexti.

Á ársfundi AGS kom fram að þetta væri ein helsta ógn nýmarkaðsríkjanna og hefði áhrif á versnandi hagvaxtarspár AGS fyrir ríkin. Að mati AGS gætu hærri vextir í Bandaríkjunum orðið til þess að fjármagn þurrkist upp á þeim stöðum þar sem þörfin er hvað mest.