Ólíklegt þykir að fjármálaráðherra og Seðlabanki Íslands veiti undanþágu frá gjaldeyrishöftum á morgun, en slíkt þyrfti að gera til þess að hægt væri að ganga frá samkomulagi Landsbankans og þrotabús gamla Landsbankans um lengingu skuldabréfs sem Landsbankinn á að greiða þrotabúinu. Þetta kom fram í kvöldfréttum Rúv.

Í vor kynntu stjórnendur gamla og nýja bankans samkomulagið, sem snýst um að breyta skilmálum á skuldabréfinu. Í stað þess að lokagreiðsla þess verði 2018 átti að fresta henni til 2026.

Fréttastofa Rúv hefur fyrir því heimildir að undanþága verði ekki veitt til að þetta geti gengið í gegn, ekki sé verjandi að veita undanþágu og það væri slæmt fordæmi.