Ólíklegt er að verkalýðshreyfingin standi við hótanir sínar um að segja upp kjarasamningum í næstu viku. Formaður stærsta stéttarfélags landsins sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins engan vilja til þess meðal sinna félagsmanna.

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, segir mikilvægt að fólk fái þær launahækkanir sem kjarasamningar tryggja því um næstu mánaðarmót. Félagsmenn hafi því ekki áhuga á að segja kjarasamningum upp.

Skrifað var undir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí í fyrra. Samkvæmt þeim eiga lægstu laun að hækka um 11.000 krónur fyrsta febrúar næstkomandi en almenn laun um þrjú og hálft prósent. Nú hóta aðilar vinnumarkaðarins að segja samningnum upp - en ákvörðun um slíkt þarf að liggja fyrir 20. þessa mánaðar, að því er segir í frétt RÚV. Stefán segir að fulltrúar launafólks hafi hit stjórnvöld í morgun til að fara yfir stöðuna og kanna hvort til greina kæmi að hækka bætur meira og lækka fyrirhugaðan skatt á lífeyrissjóði. Hann sé hins vegar svartsýnn á að það muni gerast.