Ólíklegt er að William Demant Invest, sem heldur um 39,6% hlutafjár í Össuri, auki hlut sinn í félaginu. William Demant er dótturfyrirtæki danska sjóðsins Oticon Foundation. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag var tillaga um að afskrá Össur úr Kauphöll Íslands samþykkt á aðalfundi félagsins í morgun með um 70% greiddra atkvæða. Hlutabréf í félaginu hafa nú verið færð á athugunarlista Kauphallar Íslands.

Nýlega tilkynnti Fjármálaeftirlitið (FME) að William Demant Invest sé ekki skylt að taka yfir félagið. William Demant keypti í febrúar 2,4% hlut í Össuri. Þar sem félagið átti meira fyrir 1. apríl 2009 var því ekki skylt að gera yfirtökutilboð.

Reglur í Danmörku kveða á um að ef fjárfestir eignast meira en 33% í félagi er því skylt að gera yfirtökutilboð. Hinsvegar gildir það ekki ef fjárfestirinn, í þessu tilviki William Demant Invest, á meira en þriðjungshlut fyrir skráningu félagsins.

Viðskiptablaðið ræddi við danskan sérfræðing hjá SEB og taldi hann ólíklegt að William Demant hyggi á að auka hlut sinn yfir 40%. Hann sagði að það sé algeng stefna sjóða líkt og Oticon í Danmörku að hafa félög skráð. Að hafa félag skráð feli meðal annars í sér ákveðið aðhald fyrir stjórnendur fyrirtækja. Hann sagði að Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar og William Demant Holding A/S, hafi áður gefið út að hann vilji hafa Össur á markaði.

Viðmælandi Viðskiptablaðsins í Danmörku sagðist skilja óánægju íslenskra fjárfesta vegna afskráningar Össurar. Á aðalfundi í morgun var lögð fram tillaga um að fresta ákvörðun um afskráningu. Jóhann G. Möller, sjóðstjóri hjá Stefni, lagði fram tillöguna og lýsti Friðrik Nikulásson hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna því yfir að lífeyrissjóðurinn styðji tillöguna. Hún var felld en tæplega 30% atkvæða féllu með tillögunni. Á aðalfundinum í morgun kom fram í máli stjórnarformanns að ef ráðist verður í hlutafjárútboð verður hægt að greiða fyrir hlutafé í íslenskum krónum.