Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, tók við stjórnartaumunum hjá Veitum fyrir tæplega ári en áður starfaði hann hjá Elkem á Íslandi í níu ár og þar af sem forstjóri fyrirtækisins á Íslandi í fimm ár. Gestur segir að það hafi verið talsverð viðbrigði að færa sig úr stóriðjuumhverfinu hjá Elkem yfir til Veitna, enda sé starfsumhverfi og viðskiptavinahópar fyrirtækjanna ólíkir.

„Þau níu ár sem ég vann hjá Elkem voru einstaklega góð og átti ég í frábæru samstarfi við fyrrum samstarfsfólk mitt þar. Fyrir rúmu ári síðan sá ég að Veitur væru að leita eftir nýjum framkvæmdastjóra. Eftir að hafa kynnt mér félagið komst ég að því að um mjög spennandi tækifæri væri að ræða út frá þeim flotta mannauði sem er í félaginu, fjárhagslegu umfangi m.t.t. reksturs og fjárfestinga, ásamt gríðarlega spennandi verkefnum sem eru framundan í snjallvæðingu og nýsköpun. Út frá persónulegri forgangsröðun í lífinu, faglegum áskorunum og aukinni ábyrgð var það auðveld ákvörðun að taka skrefið yfir til Veitna.

Störfin eru nokkuð ólík. Í Elkem var ég í sambandi við viðskiptavini út um allan heim þótt framleiðslan hafi farið fram hér á Íslandi. Viðskiptavinahópur Veitna er allt öðruvísi, við þjónustum einstaklinga í öllum þeim sveitarfélögum sem við þjónustum, við þjónustum sveitarfélögin sjálf og einnig fyrirtækin sem starfa innan sveitarfélaganna. Mér þótti spennandi áskorun að taka þetta skref að vera ekki einungis í viðskiptum við önnur fyrirtæki eins og hjá Elkem, heldur einnig við samfélagið og beint við neytandann. Okkar helsta áskorun sem innviðafélag er að halda í við atvinnulífið - við þurfum að halda sama tempói eða helst vera á undan því."

Ná fram hagræði með dreifðara álagi

Gestur segir að breytt álag á innviði landsins í COVID-19 faraldrinum hafi sýnt fram á hvernig hægt sé að stuðla að sparnaði í innviðafjárfestingum til framtíðar.

„Allar innviðafjárfestingar miða við toppálag, hvort sem um er að ræða vegaframkvæmdir, fráveitu, rafmagnsveitu, vatnsveitu eða hitaveitu. Landsmenn gera kröfu um þegar þeir skrúfa frá sturtunni á morgnana að þá sé heita vatnið tilbúið til notkunar. Í venjulegu árferði eru flestir að vakna á svipuðum tíma og því álagið langmest á morgnana. Það er einnig mikið álag á vegamannvirkin okkar rétt fyrir og eftir hefðbundinn vinnutíma. Til þess að viðhalda þessu hefur verið fjárfest fyrir gífurlegar upphæðir til að geta tekist á við toppálag."

Það sem komið hafi í ljós meðan á samkomubanni vegna COVID-19 stóð, sé að með því að dreifa álagstoppum, líkt og morgunsturtunni eða bílaumferðinni, þá minnki fjárfestingarþörf í öllum innviðum verulega. Þar með sé hægt að færa þá fjármuni í önnur mikilvæg verkefni.

„Það kvartaði t.d. enginn undan umferðarþunga meðan á samkomubanni stóð. Með því að dreifa álaginu fæst betri nýting á heildarkerfið, sem er hagræði fyrir alla. Það liggja gríðarleg tækifæri til margskonar verðmætasköpunar fyrir samfélagið með því að horfa hvort það sé ekki hægt að dreifa þessum álagspunktum öðruvísi," segir Gestur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .