Þórður Heimir Sveinsson
Þórður Heimir Sveinsson

„Þetta er miklu stærra mál en fólk almennt gerir sér í hugarlund. Við erum ekkert endilega að segja að verðtryggingin sé ólögmæt heldur að framkvæmdin á neytendalánalögunum sé ekki rétt,“ segir Þórður Heimir Sveinsson. Hann er lögmaður Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Guðmundsdóttur. Þau höfðuðu mál gegn Íbúðalánasjóði vegna húsnæðisláns sem þau tóku hjá sjóðnum. Íbúðalánasjóður fór fram á að málinu yrði vísað frá dómi, meðal annars vegna þess að kröfugerðin væri svo óskýr og vanreifuð að verulegum vandkvæðum væri bundið að koma tilhlýðilegum vörnum við í málinu.

Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki dómsmálinu.

Fyrirtaka var í málinu í vikunni og er búist við því að aðalmeðferð fari síðan fram í haust. Í millitíðinni verður komið ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum í tveimur öðrum málum sem Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um í vor. Þau mál varða neytendalán og þá sérstaklega lögmæti verðtryggingar og óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

„Ég held að ólin þrengist nú aðeins að öllu fjármálakerfinu,“ segir Þórður Heimir. „Við teljum það vera ótækt að miða við 0% verðbólgu í lánasamningum eins gert var í þessu tilfelli. Það hefur aldrei verið 0% verðbólga á Íslandi. Með því að miða útreikninga á lántökukostnaði, árlegri hlutfallstölu kostnaðar og afborgunum lána við 0% verðbólgu er verið að blekkja neytendur. Verðbæturnar eru ekki settar inn í greiðsluáætlunina og reyndar eru líka dæmi um að engin greiðsluáætlun fylgi svona lánum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .