Ólína Helga Sverrisdóttir, 13 ára stelpa úr Garðabæ sem búsett í Bandaríkjunum, lenti í öðru sæti í valinu á Tæknistelpu ársins í Evrópu árið 2013 (Digital Girl of the Year Award). Úrslitin voru formlega tilkynnt þann 7. nóvember síðastliðinn á ráðstefnu Evrópusambandsins um upplýsingatækni, ICT 2013, sem haldin var í Vilnius í Litháen.

Fram kemur í tilkynningu að verðlaunin eru liður í að viðurkenna áhrif framúrskarandi kvenna, stúlkna og fyrirtækja á tækniheiminn. Auk þess eiga verðlaunin að hvetja til aukinnar þáttöku kvenna í tæknitengdu námi og störfum.

Þá segir að Ólína Helga hóf forritunarferil sinn aðeins 9 ára að aldri þegar móðir hennar, Rakel Sölvadóttir, byrjaði að kenna henni að forrita með aðferðafræði sem hún sjálf hafði þróað. Þessi tilraunastarfsemi lagði grunninn að stofnun Skema, fyrirtækis sem sérhæfir sig í kennslu og ráðgjöf í forritun og tækni í skólastarfi. Ólína Helga hefur frá upphafi starfað sem aðstoðarleiðbeinandi á námskeiðum Skema, bæði við að kenna börnum og kennurum að forrita.

Þetta er fjarri því fyrsta keppni Ólínu Helgu en í fyrra sigraði hún forritunarkeppni sem haldin var á vegum FBI, bandarísku alríkislögreglunnar. Þar var markmiðið að fá ungt fólk til að forrita sögur um hættur Internetsins. Ólína Helga hyggst halda áfram að feta tæknibrautina og leggja stund á meira forritunarnám samhliða öðrum áhugamálum sínum, s.s. dansi, myndlist og sálfræði, að því er segir í tilkynningunni.